St. Þorlákssókn

Sóknarkirkjan er St. Þorlákskirkja á Kollaleiru.

Mörk sóknarinnar eru Austurland og Austur-Skaftafellssýsla.

Á Kollaleiru er hettumunkaklaustur. Þar búa hettumunkar frá Slóvakíu.

Á Reyðarfirði býr einnig einsetununna síðan 2008. Hún kemur upprunalega frá Litháen en ákvað að setjast að hér á landi og helga sig bænalífi.

Kapella er einnig á Egilsstöðum. Hún var blessuð þann 20. desember 2009 og nefnist „Corpus Christi” kapella eða Kapella hins dýrmæta líkama og blóðs Krists. Í þessari kapellu er messa lesin daglega. Á Egilsstöðum búa tvær karmelsystur.

Árið 2012 blessaði Herra Pétur Bürcher, Reykjavíkurbiskup, nýja kaþólska kapellu í Höfn í Hornafirði. Kapellan var vígð 7. september 2013 og helguð heilagri fjölskyldu og heilögum Jean-Marie Vianney. Kapellan er mikil lyftistöng í safnaðarstarfi á þessum slóðum, þar sem kaþólsku fólki hefur fjölgað verulega á undanförnum árum. Hettumunkar frá Reyðarfirði sjá um safnaðarstarf þar og messa í kapellunni að jafnaði tvisvar í mánuði.

Auk þess er lítil kapella á Djúpavogi og munkarnir messa reglulega þar. Eins og annarsstaðar á landi notar Kaþólska kirkjan víða á Austurlandi kirkjur Þjóðkirkjunnar til að halda reglulegar messur.